TULIPOP

KYNNINGARSTIKLA

FYRIR ENNÞÁ FLEIRI

TULIPOP VIDEÓ!

Búi er rólyndur, blíður og umhyggjusamur sveppastrákur. Hann býr í fallegu húsi í Blómsturdal þar sem hann fær sér oft lítinn blund í hengirúminu sínu. Búi er fróðleiksfús lestrarhestur og kemur þekking hans á náttúru og dýrum Tulipop sér oft vel þegar hann lendir í óvæntum ævintýrum með vinum sínum.


Hugrakka og káta sveppastelpan Gló býr á Gorkúluhæð við rætur eldfjallsins Krákutá. Hún elskar að uppgötva eitthvað nýtt og spennandi og sést aldrei án töfraskikkjunnar sem geymir hluti sem nýtast vel í ævintýrum hennar með vinum sínum. Gló getur verið óþolinmóð en er traustur vinur og myndi ganga Tulipop endilanga til að hjálpa vini í neyð!


Freddi er skógarskrímsli með hjarta úr gulli og finnst ekkert skemmtilegra en að leika sér og borða safarík boltaber. Hann er forvitinn, klaufskur og alltaf til í ævintýri. Hann þekkir nánast hvern krók og kima á Tulipop og getur talað við dýrin. Stundum verður Freddi svolítið myrkfælinn, en þá kemur sér vel að hornin hans lýsa í myrkri.


Maddý er ákveðin og sjálfsörugg bangsastelpa sem er margt til lista lagt. Hún býr í bleiku kuðungahúsi á jarðaberkjaengi og er afbragðs bakari og bakar oft gómsætar kökur fyrir vini sína og finnst gaman að halda veislur. Maddý hefur dálæti á bleikum lit og því þarf helst allt að vera bleikt. 


Herra Barri er öldungurinn á Tulipop. Hann býr á Hauskúpuhæð þar sem hann hefur fest djúpar rætur sínar. Herra Barri er góðhjartaður og hálfgerður afi hinna ungu íbúa eyjunnar en þau heimsækja hann oft til þess að fá góð ráð. Herra Barri hefur öll svör á reiðum höndum og þó að engin séu vitni þá segir sagan að hann geti breytt tárum í gimsteina.


Litríka ævintýraeyjan Tulipop myndaðist fyrir óteljandi árum þegar eldfjall gaus neðansjávar. Á Tulipop má finna gullna sanda, bleik engi, harðgerð fjöll, sjálflýsandi plöntur og risa sveppi, og stundum dansa norðurljós á himninum. Á eyjunni búa alls kyns furðuverur og ævintýri leynast undir hverjum steini. Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér!